
Ástin mín… viltu spritt ?
Það er merkilegt hvernig ein setning getur snarlega breytt tilfinningum eða skoðunum henni tengdri á stuttum tíma.
Ég var í dag að taka myndir af brúðhjónum í einum af almenningsgörðum borgarinnar og í lok tökunnar er ég að ganga út úr garðinum í átt að bílnum þegar ég heyri hluta af samtali pars sem var að ganga fyrir aftan mig. Maðurinn segir við unnustu sína:
„Ástin mín… viltu spritt ?“
Mér fannst þetta mjög fyndið en samt yfirmáta rómantískt. Á þessum COVID-19 tímum þá spyr maður sig hvort sé hægt að tjá sig betur en að bjóða ástinni sinni spritt! Í þessari setningu má skynja ást og umhyggju.
En skoðum hina hliðina, ef þetta hefði verið fyrir um ári síðan hefði maður eflaust ályktað að þarna væru rónar á ferðinni! Svona breytast tímarnir, og fólkið með!
Förum varlega, njótum hvers annars og sprittaðu elskuna þína! ❤️